Íslandsmet og bætingar á RIG graphic

Íslandsmet og bætingar á RIG

05.02.2017 | höf: Kristín Birna

Reykjavík International Games fór fram í Laugardalshöll í dag en þar mættu margir sterkir ÍR-ingar til leiks.

Unga og efnilega fjölþrautarfólkið okkar var upptekið í dag en Tristan Freyr Jónsson kepti í bæði 60m hlaupi og langstökki. Hann varð í fjórða sæti í 60m hlaupinu á sínum ársbesta tíma, 7,02sek, og þriðji í langstökki með stökk upp á 7,11m þar sem hann þurfti að lúta í lægra haldi fyrir liðsfélaga sínum Þorsteini Ingvarssyni sem varð í þriðja sæti með stökk upp á 7,38m.  Hin unga og efnilega Helga Margrét Haraldsdóttir keppti í þrem greinum í dag og náði góðum árangri. Hún náði fjórða sæti í 60m hlaupi (7,94sek) og 60m grindahlapi (9,32sek) en fimmta sæti í langstökki með stökk upp á 5,17metra. Hulda Þorsteinsdóttir varð rétt á undan henni í langstökkinu með stökk upp á 5,19metra. Þess má geta að Hulda sérhæfir sig í stangarstökki en fór útfyrir þægindarammann í dag með því að keppa í langstökki án undirbúnings í greininni.

Í 60m hlaupi kvenna varð Tíana Ósk Whitworth fremst Íslendingar þegar hún bætti sinn árangur og hljóp á 7,68sek en náði hún öðru sæti á eftir Mette Graversgaard frá Danmörku. Auk Tíönu og Helgu Margrétar keppti Jóhanna Kristín Jóhannesdóttir í 60m hlaaupi og varð sjötta með tíma upp á 8,04sek. Jóhanna Kristín er að koma til baka eftir nokkurra ára baráttu við meiðsli.

Stangarstökk karla var spennandi en þar varð ÍR-ingurinn Leó Gunnar Víðisson í þriðja sæti þegar hann vippaði sér yfir 4,20metra. Tugþruatarmennirnir Guðmundur Karl, Ármanni; og Ingi Rúnar, Breiðabliki náðu gulli og silfri í þessari grein en þess má geta að ÍR-þjálfararnir Þráinn Hafsteinsson og Mark Johnson koma að þjálfun þeirra og fögnum við góðum árangri hjá þeim.

Kúluvarp karla var spennandi en þar hafði Guðni Valur Guðnason betur gegn Eric Cadée frá Hollandi þegar hann bætti sig og kastaði 17,36metra. Guðni Valur sem sérhæfir sig í kringlukasti var því að standa sig vel í þessari “aukagrein”. Sindir Lárusson náði líka góðum árangri en hann varð í þriðja sæti og kastaði kúlunni 16,12 metra sem er ársbesti árangur hans.

Thelma Lind Kristjánsdóttir gerði sér lítið fyrir og stórbætti sinn besta árangur í kúluvarpi þegar hún kastaði 13,82metra sem landaði henni í öðru sæti á eftir Ásdísi Hjálmsdóttur, Ármanni. Með þessu bætti Thelma Lind 19 ára gamalt ÍR-met í greinni sem Karólína Haraldsdóttir átti með 13,27m. Eins og Guðni Valur, sérhæfir Thelma Lind sig í kringlukasti en sýnir hér hve fjölhæf hún er.

ÍR-ingar stóðu sig einnig glæsilega í 400m hlaupi í dag. Ívar Kristinn Jasonarson sigraði nokkuð örugglega í karlaflokki og gaf útlendingunum Benjamin Mullen, Danmörku og Kasper Olsen Svíþjóð ekkert eftir. Ívar hljóp á 48,23 sek sem er hans ársbesti tími.  Hin unga og efnilega Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir bætti sig í 400m hlaupi og varð í öðru sæti á undan sterkum, eldri, erlendum og innlendum keppendum. Ingibjörg Sigurðardóttir, sem einnig var meðal yngstu keppendanna í dag stóð sig líka með prýði þegar hún hljóp á 61,52sekúndum og bætti sinn besta árangur í greininni innanhúss.

Síðast en ekki síst bætti Aníta okkar Hinriksdóttir Íslandsmet sitt í 800m hlaupi í glæsilegu og vel útfærðu hlaupi. Hún hljóp á 2:01;18 og bætti þar með metið sitt um tæplega hálfa sekúndu. Fengnar voru fimm erlendar stúlkur til að koma og keppa a móti Anítu en ógnuði þær aldrei sigri Anítu í dag.

Ungu fulltrúar okkar í 600m hlaupi 15 ára og yngri stóðu sig með prýði en þau bættu sig bæði í greinninni. Iðunn Björg Arnaldsdóttir varð önnur á 1:40;29sek og Einar Andri Víðisson varð í fimmta stæti á 1:41;87

Að lokum er gaman nefna það að Hlynur Andrésarson sem stundar æfingar og háskólanám í Bandaríkjunum bætti í dag Íslandsmet karla um 4 sekúndur í 3000m hlaupi þegar hann hljóp á 8:06;69 á sterku móti í Bandaríkjunum. ÍR-ingurinn og Ólympíufarinn margkunni Kári Steinn Karlsson átti metið í greinninni síðan 2007.

Innilega til hamingju öll sem eitt. Frábær árangur í dag

X