Íslandsmet, ÍR met og persónulegar bætingar graphic

Íslandsmet, ÍR met og persónulegar bætingar

03.06.2018 | höf: Kristín Birna

Það hefur mikið gengið á hjá frjálsíþróttafólkinu okkar um helgina en ÍR-ingar kepptu á þrem mismandi stöðum í heiminum, og allstaðar með góðan árangur.

  1. Þau Ívar Kristinn Jasonarson, Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir og Dagbjartur Daði Jónsson kepptu í Belgíu á laugardaginn. Ívar Kristinn bætti sinn persónulega besta árangur í 400m grindahlaupi þegar hann kom í mark á 52,15 sekúndum. Dagbjartur Daði sem hefur verið að sýna góða takta undanfarið kastaði 68,25metra í spjótkasti og varð í öðru sæti á þessu sterka móti. Hrafnhild Eir sem er að koma til baka eftir meiðsli keppti í bæði 100m og 200m og hljóp hún 100m á tímanum 12,11sek og 200m á 24,25sek.  Þetta var góður árangur hjá þríeikinu í Belgíu og boðar fyrir keppnistímabilið í sumar.
  2. Í dag var haldið lítið kastmót á kastsvæðinu í Laugardal. Þar kastaði Guðni Valur Guðnason karlakringlunni lengst 61,65metra. Thelma Lind Kristjánsdóttir kastaði kringlunni 49,99 metra og Erna Sóley Gunnarsdóttir bætti sig í kúluvarpi kvenna úti þegar hún varpaði kúlunni 13,93metra. Loks kastaði hin 16 ára Elísabet Rut Rúnarsdóttir sleggju kvenna 55,20metra sem er nýtt ÍR met og næstlengsta kast kvenna á Íslandi frá upphafi. Aldeilis frábær árangur hjá -öllu þessu unga og efnilega fólki í Laugardalnum í dag.
  3. Síðast en ekki síst þá bætti Aníta Hinriksdóttir Íslandsmet kvenna í míluhlaupi á sterku móti í Hollandi í dag. Míluhlaup er 1609 metrar og ekki oft hlaupið á Íslandi né á alþjóðavettvangi en Aníta fékk tækifæri til þess í dag. Aníta varð í 11. sæti í ansi jöfnu og spennandi hlaupi og hljóp hún á tímanum 4:29,20 mín sem er bæting á gamla metinu um meira en 17 sekúndur. Sigurvegari í hlaupinu var Jenny Simpson frá Bandaríkjunum á tímanum 4:25,71mín.

Við óskum Anítu innilega til hamingju með enn eitt Íslandsmetið sem hún setur sem og öllum hinum sem kepptu um helgina og stóðu sig með mikilli prýði. Sumarið byrjar aldeilis vel hjá okkar fólki

X