Íslandsmet hjá Hlyni í 3000m graphic

Íslandsmet hjá Hlyni í 3000m

10.02.2019 | höf: María Stefánsdóttir

Hlynur Andrésson setti í gær, 9. febrúar, enn eitt Íslandsmetið innanhúss þegar hann sigraði í 3000m hlaupi í Ghent í Belgíu á móti sem haldið var af IFAM. Hérinn í hlaupinu náði ekki að halda uppi settum hraða og hlaupið var af þeim sökum mun hægara en lagt hafði verið upp með. Hlynur hljóp samt sem áður á 8:08,24 mín sem er nýtt Íslandsmet en eldra metið á 200m braut var í eigu Kára Steins Karlssonar 8:10,94 mín frá 21. janúar 2007. Mjótt var á mununum í hlaupinu en Hlynur var fyrstur, Þjóðverjinn Jannik Arbogast annar á 8:08.30 mín og Norðmaðurinn Per Svela þriðji á 8:08.43 mín. Úrslitin má sjá http://www.toastit-live.be/results/2019/feb/za09/event012h01.html

Hlynur átti sjálfur betri tíma, 8:02,08 mín frá 3. febrúar 2018, sem hlaupið var á braut sem er lengri en 200m, svokallaðri „oversized track“ en slík met eru merkt sérstaklega í afrekaskrám og árangur sem næst á slíkri braut gildir t.d. ekki sem lágmark EM innanhúss í 400m og lengri hlaupagreinum. Hlynur á nú metið í 1500m, mílu (1609m), 3000m og 5000m innanhúss og 5000m, 10000m, 3000m hindrunarhlaupi utanhúss.

Hlynur stefnir ótrauður á keppni í 3000m EM innanhúss en lágmarkið þar er 8:05 mín en frestur til að ná lágmarki er 21. febrúar.

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman
Mynd: FRÍ

X