Íslandsmet, aldursflokkamet, mótsmet og persónulegar bætingar á Stórmóti graphic

Íslandsmet, aldursflokkamet, mótsmet og persónulegar bætingar á Stórmóti

22.01.2018 | höf: María Stefánsdóttir

Stórmót ÍR fór fram í 22. sinn helgina 20. – 21. janúar og var þátttaka, árangur og framkvæmd eins og best verður á kosið. 714 keppendur voru skráðir til leiks, þeir yngstu fæddir árið 2012 og tóku þeir þátt í skemmtilegri þrautabraut eins og 9-10 ára börnin. 11 ára og eldri kepptu í hefðbundnum frjálsíþróttagreinum. Íþróttafólkið keppti að jafnaði í einni til fjórum greinum þessa tvo daga en einnig voru nokkir sem kepptu í frá 6 og upp í 9 greinum. 36 lið öttu kappi og urðu ÍR-ingar hlutskarpastir þegar heildar fjöldi verðlauna fyrir fyrsta til þriðja sætið er tekinn saman. ÍR-inga hlutu 45 verðlaun, þar af 19 gull, en FH og Breiðblik komu skammt á eftir með 39 og 35 verðlaun. Mótið er mikilvægur þáttur í undirbúningi frjálsíþróttafólks fyrir Íslands- og bikarmótin sem framundan eru innahúss, sem og RIG, NM inni og mögulega EM.

Færeyingar settu sterkan svip á mótið, líkt og undanfarin ár, en um 40 keppendur komu frá fjórum færeyskum félögum. Færeyingarnir sendu sterka keppendur til leiks og unnu sigur í nokkrum greinum og fóru heim með 29 verðlaun.

Eitt Íslandsmet í flokki fullorðinna féll á mótin og þar var á ferðinni ÍR-ingurinn Tiana Ósk Whitworth sem gerði sér lítið fyrir og setti glæsilegt Íslandsmet í 60m hlaupi, 7,47 sek, sem einnig er met í 20-22 ára flokki, og í 18-19 ára flokki en hún er á 18. aldursári. Tiana hljóp einnig mjög vel í 200 og sigraði þar örugglega.

Mikill fjöldi persónulegra bætinga leit dagsins ljós en sá háttur er hafður á á þessu móti að sá sem bætir sig mest í hverri keppnisgrein í hverjum flokki hlýtur viðurkenningarskjal. Nokkur mótsmet og aldursflokkamet féllu á mótinu og voru það eftirfarandi:

  • Birgir Jóhannes Jónsson ÍR þrístökk 16-17 ára 13,27 m (Mótsmet)
  • Kristján Viggó Sigfinnson Ármann sem má varla binda á sig stökkskóna án þess að hann bæti sig og íslandismetið nokkrum mínútum síðar. Hástökk 15 ára 2,01 m
  • Ragúel Pino Alexandersson UFA Langstökk 16-17 ára, 6,50 m
  • Sindri Freyr Sigurðsson Hekla Langstökk 15 ára, 5,94 m
  • Helga Margrét Haraldsdóttir ÍR 60m grindahlaup 16-17 ára, 9,03 sek
  • Stepahanie Ósk Ingvarsdóttir Katla Hástökk 11 ára, 1,37 m
  • Tiana Ósk Whitworth ÍR Íslandsmet 7.47 sek

ÍR-ingar þakka keppendum, þjálfurum, sjálfboðaliðum og öllum þeim sem gerðu mótið að veruleika, sem og áhorfendum sem studdu duglega við bakið á sínum keppendum.

 

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman

X