ÍR Íslandsmeistarar graphic

ÍR Íslandsmeistarar

19.02.2017 | höf: Kristín Birna

Seinni degin MÍ aðalhluta er nú lokið. ÍR-ingar stóðu uppi sem sigurvegarar Meistaramótsins með 32.055 stig en FH-ingar urðu í öðru sæti með 27.426 stig. ÍR konur og ÍR karlar hömpuðu einnig sínum meistaratitlum með góðum yfirburðum, en konurnar hlutu 19.449 stig og karlarnir 12.606 stig.

ÍR hlaut alls 11 Íslandsmeistaratitla á mótinu, 8 silfur og 4 brons. Tiana Ósk Whitworth, sem einungis keppti á seinni degi mótsins vegna veikinda, hlaut 1017 IAAF stig í 200m og varð stigahæst allra, en Þorsteinn Ingvarsson sem stökk manna lengst í langstökkinu hlaut 1014 IAAF stig og varð næststigahæstur.

Ívar Kristinn Jasonarson sigraði í 200m á 22.08 sek og Helgi Björnsson sem er að koma aftur eftir nokkra fjarveru á hlaupabrautinni kom sterkur til baka og komst í úrslit 200m hlaupsins á 23.17 sek. Tiana Ósk Whitwort hljóp frábærlega í 200m á 24,97 sek eins og áður kom fram og sama gerði Andrea Kolbeinsdóttir sem sigraði í 3000 m hlaupi kvenna á sínum ársbesta tíma 10:18 mín og var 20 sek á undan næstu konu í mark. Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir reyndi fyrir sér í annarri grein en vanlega og kom fyrst í mark í 800m á 2:22 mín en Ingibjörg Sigurðardóttir ÍR fylgdi fast á hæla henni á 2:23 mín. Þorsteinn Ingvarsson sigraði nokkuð örugglega í langstökkinu með 7,47 m sem er hans ársbesti árangur.

Í 3000m karla hljóp Arnar Pétursson aðra hlaupara af sér og kom fyrstur í mark á 8:51 mín sem var 26 sekúndum hraðar en næsti maður en Þórólfur Ingi Þórólfsson, ÍR, kom 3. í mark og bætti sinn besta tíma.

Í 4 x 200m boðhlaupi karla sigraði sveit ÍR sveit Breiðabliks með 1 sek mun en ÍR átti einnig sveit í 4. sæti. Í sigursveit ÍR hlupu Þorsteinn Ingvarsson, Helgi Björnsson, Kolbeinn Tómas Jónsson og Ívar Kristinn Jasonarson. Kvennasveit ÍR sigraði í boðhlaupi kvenna á 1:43;54 mín sem er nýtt Íslandsmet í flokki 18-19 ára stúlkna. Sveit Breiðabliks kom önnur í mark 3 sek á eftir ÍR-sveitinni. Í sveit ÍR hlupu Vilborg María Loftsdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir, Helga Margrét Haraldsdóttir og Tiana Ósk Whitwort.

Í stangarstökki kvenna kom Auður María Óskarsdóttir sterkt til baka eftir nokkra fjarveru á brautinni og nældi sér í 2. sætið með 3,23 m stökki, frábært að vera búin að fá Auði Maríu til baka í stökkskóna. Stella Dögg Blöndal sem er nýbyrjuð að æfa stangarstökk náði sjötta sæti og bætti sinn besta árangur í greininni. Helga Margrét Haraldsdóttir kom sá og sigraði í þrístökkinu með 11.46 m en hún keppti í mörgum greinum um helgina með góðum árangri.

ÍR-ingar eru ánægðir með afrakstur helgarinnar en nánari úrslit mótsins má finna hér.  Þetta sýnir enn og aftur yfirburði ÍR-inga á frjálsíþróttavellinum á Íslandi og horfum við nú spennt til MÍ 15-22 ára sem fram fer um næstu helgi í Laugardalshöll.

— Fríða Rún Þórðardóttir tók saman

X