ÍR-ingar með 4 af stigahæstu afrekum Íslendinga skv. stigatöflu IAAF graphic

ÍR-ingar með 4 af stigahæstu afrekum Íslendinga skv. stigatöflu IAAF

21.10.2019 | höf: María Stefánsdóttir

Nýverið birti Frjálsíþróttasamband Íslands upplýsingar um fimm stigahæstu afrek síðasta sumars. ÍR-ingar geta verið stoltir enda áttu þeir fjögur af fimm stigahæstu afrekunum samkvæmt alþjóðlegri stigatöfu Alþjóða Frjálsíþróttasambandssins (IAAF).

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir ÍR (17 ára) hafnaði í 4. og 5. sæti með afrek sín í 100m og 200m hlaupum síðasta sumar. Hún hlaut 1.081 stig fyrir 100m hlaup sitt á unglingamótinu Bauhaus Junioren Gala í Mannheim í Þýskalandi þar sem hún hljóp á 11,56 sek sem var bæting á aðeins klukkutíma gömlu Íslandsmeti ÍR-ingsins Tiönu Óskar Whitworth. Guðbjörg Jóna náði síðan Íslandsmeti í 200m hlaupi er hún hljóp á 23,45 sekúndum á MÍ 15-22 ára á Selfossi í júní og fékk fyrir það 1.090 stig.

Þriðja stigahæsta afrekið síðastliðið sumar átti Aníta Hinriksdóttir (23 ára). Hún fékk 1.096 stig fyrir 1.500m hlaup sitt í Henglo í Hollandi þar sem hún hljóp á 4:14,00 mínútum. Hún hefur átt við meiðsli að stríða að undanförnu og hafa þau svo sannarlega sett mark sitt á æfingar og keppni hennar á þessu ári og því síðasta, einkum og sér í lagi í 800m hlaupi. Hún er vonandi að koma sterk til baka.

Stigahæsta afrekið átti Guðni Valur Guðnason (24 ára). Hann kastaði 64,77 metra á móti í lok maí í Viimsi í Eistlandi og hlaut fyrir það 1.148 stig sem er árangur á heimsmælikvarða enda er Guðni listaður 30. í heiminum með þann árangur. Guðni var eini Íslendingurinn sem keppti á HM í Doha í byrjun september. Meiðsli og veikindi settu strik í reikninginn hjá Guðna á þessu ári. Hann þurfti meðal annars að leggjast inn á sjúkrahús vegna lífhimnubólgu í upphafi árs og mátti hann ekki gera neitt í einn og hálfan mánuð á eftir það.

Þessi listi tilgreinir aðeins toppurinn á ísjakanum hjá ÍR-ingum ef svo má að orði komast.

Sumarið markaðist af mjög góðum árangri og bætingum hjá fjölmörgum iðkendum, jafnt í hlaupum, stökkum og kastgreinum, og ljóst er að bjartir tímar eru fram undan.

Nánari upplýsingar um afrekin má finna hér http://fri.is/fimm-stigahaestu-afrek-sumarsins/

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman.

X