ÍR-ingar keppa í Evrópubikar landsliða í fjölþrautum

Samsett mynd: Helga Margrét Haraldsdóttir og Tristan Freyr Jónsson

Evrópubikar landsliða í fjölþraut fer fram nú um helgina í Monzon á Spáni. Tveir ÍR-ingar taka þátt fyrir Íslands hönd, þau Helga Margrét Haraldsdóttir og Tristan Freyr Jónsson.

Að loknum fyrri keppnisdegi er Tristan Frey í 4. sæti  af 26 keppendum og er árangur hans eftirfarandi: 100m 11,10 sek sem er í kringum þriðji besti árangur hans í 100m í þraut. Í langstökkinu stökk hann 7,07m sem er lengra en hann stökk í metþrautinni sinni á HM U20 í fyrra. Í kúluvarpinu kastaði hann 12,52m sem alveg við hans besta í greininni. Í hástökki stökk hann 1,86 m sem er undir væntingum en hann hefur verið að stökkva um 10 cm hærra þegar best lætur. Tristan hljóp hraðast allra í 400m, tími hans var 49,77 sek sem er hans 5. besti tími frá upphafi.

Tristan hefur hlotið 3810 stig eftir fyrri dag keppninnar og er aðeins 48 stigum frá þriðja sætinu. Sá sem er fyrstur er ekki langt undan, með 4180 stig.

Liðsfélagar hans eru þeir Ingi Rúnar Kristinsson Breiðabliki sem er í 10. sæti, Ísak Óli Traustason UMSS í 17. sæti og Gunnar Eyjólfsson UFA í 24. sæti.

Helga Margrét er að loknum fyrri keppnisdegi í 20. sæti með 2779 stig. Helga Margrét, sem verður 16 ára í október, er að keppa í sinni fyrstu sjöþraut með kvenna kastáhöldum og á kvennahæð í grindahlaupi. Hún hljóp á 15.54 sek í grindinni, sem er mikil bæting hjá henni og stökk 1,51 m í hástökki sem er við hennar besta. Í kúluvarpi kastaði Helga 9,86 m og hljóp 200 metrana á 25,35 sek sem er góð bæting hjá henni.

Auk Helgu Margrétar keppa þær María Rún Gunnlaugsdóttir FH og Irma Gunnarsdóttir Breiðabliki fyrir Íslands hönd. Að loknum fjórum greinum er Irma í 14. sæti og María Rún í því 16.

 

Fríða Rún tók saman

X