ÍR-ingar Íslandsmeistarar 15-22 ára graphic

ÍR-ingar Íslandsmeistarar 15-22 ára

26.01.2020 | höf: Kristín Birna

Meistaramót Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum var haldið nú um helgina, 25.-26. febrúar, í Kaplakrika. ÍR vörðu Íslandsmeistartitilinn frá því í fyrra en 58 ÍR-ingar voru skráðir til keppni. Þeir náðu í 449,5 samanlögð stig í öllum aldursflokkum, eða 94 stigum fleiri en Breiðablik sem voru í öðru sæti með 355,5 stig en í þriðja sæti varð lið HSK/Selfoss með 244,5 stig.

ÍR-ingar hlutu flest verðlaun eða 74 talsins, þar af 26 gull, Breiðablik fékk 51 verðlaun, þar af 19 gull og lið HSK/Selfoss fékk 34 verðlaun og voru gylltu verðlaunapeningarnir 13 talsins. Alls sendu 13 félög og héraðssambönd keppendur á mótið. Persónulegar bætinar ÍR-inga voru 67 talsins.

Tveir ÍR-ingar settu mótsmet um helgina en það voru þær Dóra Fríða Orradóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Sú fyrrnefnda setti mótsmet í 300m hlaupi en tími hennar var 43,30 sek. Guðbjörg Jóna setti mótsmet í 60m hlaupi er hún hljóp á 7,50 sek.

Árangur ÍR-inga í einstökum aldursflokkum var eftirfarandi:

Í flokki 15 ára varð piltasveitin í 2. sæti með 54 stig og varð stúlknasveitin í sama sæti með 42 stig.

Dóra Fríða Orradóttir varð þrefaldur Íslandsmeistari en hún vann bæði í 200 og 300m hlaupum en fyrri vegalengdina hljóp hún á 27,07 sek en þá síðari á 43,33 sek. Hún náði einnig gulli í stangarstökki þegar hún fór yfir 2,2m.

Í flokki 16-17 ára varð piltasveitin í 5. sæti með 23 stig en stúlknasveitin í 3. sæti með 31 stig.

Viktoría Ósk Sverrisdóttir varð Íslandsmeistari í 1.500m hlaupi er hún hljóp á 5:53,22 sek. Hún varð einnig Íslandsmeistari í stangarstökki með stökk upp á 1,9m.

Í flokki 18-19 ára urðu piltarnir lang efstir með 89 stig og stúlkurnar unnu einnig afgerandi sigur með 95 stig.

Mikael Daníel Guðmarsson varð Íslandsmeistari í hástökki þegar hann stökk 1,85m. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir vann 60m hlaupið á 7,50 sek. en það var um leið mótsmet. Hún varð einnig Íslandsmeistari í 200m hlaupi en vegalengdina hljóp hún á 24,16 sek. Í þrístökki lenti Birgir Jóhannes Jónsson í fyrsta sæti þegar hann stökk 13,09m. Katrín Marey Magnúsdóttir varð Íslandsmeistari í 1.500m hlaupi  en hún hljóp vegalengdina á 5:03,06 sek. Sigursteinn Ásgeirsson kastaði lengst allra í kúluvarpi er hann kastaði 14,67m og varð því Íslandsmeistari. Ingibjörg Sigurðardóttir náði Íslandsmeistaratitli er hún var fljótust allra í 400m hlaupi þegar hún hljóp á 58,36 sek. Hún vann svo einnig 800m hlaupið en hún hljóp á 2:20,92 sek. ÍR-ingar unnu þrefalt í hlaupinu. Í kúluvarpi stúlkna varð Katharina Ósk Emilsdóttir hlutskörpust með kasti upp á 11,90m og var hún því Íslandsmeistari. Í stangarstökki bar Þorvaldur Tumi Baldursson sigur úr býtum með stökk upp á 4,0m. Bæði piltarnir og stúlkurnar urðu svo Íslandsmeistarar í 4*200m boðhlaupi en piltasveitin hljóp á 1:36,86 sek og stúlkurnar á 1:45,44 sek.

Í flokki 20-22 ára og yngri varð piltasveitin í 3. sæti með 18 stig en stúlkurnar báru höfuð og herðar yfir önnur lið en þær hlutu 97,5 stig.

Agnes Kristjánsdóttir varð Íslandsmeistari í 60m hlaupi en hún hljóp á 7,85 sek og með þessum árangri jafnaði hún sinn besta árangur. Þess bera að geta að verðlaunapallurinn var alblár og gott betur enda urðu ÍR-ingar í fjórum efstu sætunum! ÍR-ingar náðu einnig Íslandsmeistaratitli piltameginn í 60m því Dagur Andri Einarsson lenti í 1. sæti á 7,08 sek. Hildigunnur Þórarinsdóttir varð Íslandsmeistari í þrístökki með stökk upp á 11,79m en hún bar einnig sigur úr býtum í 60m grindahlaupi en tími hennar var 9,27 sek. Hún gerði sér svo lítið fyrir að vinna einnig í langstökki með stökki upp á 5,54m. Hún varð því þrefaldur Íslandsmeistari. Ásta Margrét Einarsdóttir kastaði 8,69m í kúluvarpi og náði með því kasti Íslandsmeistaratitli. Árni Haukur Árnason varð Íslandsmeistari í 60m grindahlaupi en hann hljóp á 9,15 sek. Í 800m hlaupi stúlkna bar Sara Mjöll Smáradóttir sigur úr býtum en tími hennar var 2:24,44 sek. Boðhlaupssveit ÍR í stúlkna varð svo Íslandsmeistari í 4*400m hlaupi með tímann 4:28,53.

Nánari upplýsingar um mótið er að finna hér.

Keppendum eru færðar innilegar hamingjuóskir með árangurinn um helgina.

Næsta verkefni er RIG 2020 en mótið fer fram í Laugardalshöll 2. febrúar kl. 15:50-17:50. Helgina 15. og 16. febrúar verður MÍ 11-14 ára haldið í Laugardalshöll og helgina á eftir verður svo aðalhluti MÍ í Kaplakrika.

X