ÍR-ingar í Reykjavíkurmaraþoni graphic

ÍR-ingar í Reykjavíkurmaraþoni

19.08.2017 | höf: María Stefánsdóttir

ÍR ingar áttu frábæran dag í Reykjavíkurmaraþoninu í morgun. Hlaupið fór fram við frábærar aðstæður og var þátttökumet slegið en 14.500 manns tóku þátt. Mikil stemming var í bænum og á mörgum stöðum á hlaupaleiðinni sér í lagi þar sem 10 km hlauparar fóru um, sem einnig var fyrsti hluti hálfa- og heila maraþonsins.

Sigurvegari í karlahlaupi maraþonhlaupsins var enginn annar en Arnar Pétursson sem hljóp á 2:28.17 klst. Tími Arnars er 4. besti tími Íslendings frá upphafi og 3 mín bæting hjá Arnari. Hann var 11 mínútum á undan næsta manni í mark og fagnaði að vonum vel þegar í mark var komið. Arnar er jafnframt Íslandsmeistari í maraþoni.

Elín Edda Sigurðardóttir sigraði í hálfmaraþoni kvenna á 1:21.25 klst og varð hún 13. í mark sem er frábær árangur. Þetta er 6. besti tími íslenskrar konu í vegalengdinni. Í hálfu maraþoni karla sigraði Hlynur Andrésson, en hann hljóp á 1:09.06 mín sem bæting hjá honum um 30 sek og færir hann upp í 6. sæti Íslendinga í hálfu maraþoni frá upphafi. Þórólfur Ingi Þórólfsson varð í 3. sæti af Íslendingunum en 7. í heildina. Hann hljóp á 1:17,12 klst. Vilhjálmur Þór Svansson varð 4. Íslendinganna á 1:19,32 mín. Arnar, Þórólfur, Vilhjálmur og Elín Edda eru öll þjálfuð af Mörthu Ernstsdóttur

Í 10 km kvenna varð Fríða Rún Þórðardóttir í 3. sæti íslenskra kvenna en 5. af öllum konum í 10 km. Hún hljóp á 38:43 mín eftir mikinn endasprett en tíminn er nákvæmlega sami tími og hún hljóp á í fyrra.

Fríða Rún tók saman

 

 

Ljósmynd: Eva Björk Ægisdóttir

X