ÍR-ingar á mótum erlendis graphic

ÍR-ingar á mótum erlendis

23.08.2018 | höf: María Stefánsdóttir

Aníta Hinriksdóttir, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Guðni Valur Guðnason og Tiana Ósk Whitworth hlutu boð um að taka þátt í Trond Mohn Games, sterku móti sem haldið var í Bergen í Noregi í gær og höfnuðu þau öll í verðlaunasætum í sínum greinum. Guðbjörg og Tiana kepptu í 100 m hlaupi þar sem þær hlutu silfur og brons. Guðbjörg kom í mark á 11,91 sek og Tiana á 12,05 sek. Í 800 m hlaupi varð Aníta í þriðja sæti og kom í mark á tímanum 2:04,02 mín. Guðni Valur hlaut bronsið í kringlunni og var lengsta kast hans 60,03 m.

Guðni var einnig á ferðinni um liðna helgi og kastði kringlunni 62,20 m á móti í Eistlandi, sem skilaði honum þriðja sætinu. Og á Manchester International mótinu, sem haldið var 15. ágúst sl. kastaði hann lengst allra, 62,91 m og setti nýtt mótsmet. Hann keppti þar einnig í kúluvarpi þar sem hann varð þriðji með kasti upp á 17,35 m, sem er aðeins tveimur sm frá hans besta árangri. Ívar Kristinn Jasonarson og Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir tóku einnig þátt í mótinu í Manchester. Ívar keppti í 400 m grindahlaupi og kom fimmti í mark á 51,76 sek sem er hans besti árangur og í fyrsta skipti sem hann hleypur 400 m grind undir 52 sek. Tími hans er þriði besti tími Íslendings í greininni frá upphafi. Hrafnhild keppti í 100 og 200 m hlaupum. Hún hljóp 100 m á 12,03 sek og 200 m á 24,56 sek.

Um síðustu jelgi var danska meistaramótið í fjölþrautum haldið í Silkeborg á Jótlandi. Þar voru sjö Íslendingar voru mættir til leiks, þar af tveir úr ÍR. Úlfur Árnason hafnaði í fimmta sæti í tugþraut 16-17 ára pilta með 5375 stig, 20 stigum á eftir fjórða sætinu. Benjamín Jóhann Johnsen varð fjórði í tugþraut 20-22ja ára pilta með 5811 stig og munaði aðeins einu stigi á honum og þeim í þriðja sæti.

 

 

X