ÍR-ingar á Bauhaus Junioren Gala

Bauhaus Junioren Galan boðsmótið sem fram fer í Mannheim í Þýskalandi er orðinn fastur liður hjá yngsta afreksfólkinu í frjálsíþróttum. Mótið er mjög sterkt og þarf að ná lágmörkum, settum af mótshaldara, til að fá keppnisrétt á mótinu. Í ár sendir Ísland fimm keppendur á mótið og í þeim hópi eru þrjá ÍR stúlkur, þær Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth sem keppa í 100m og 200m hlaupi og Erna Sóley Gunnarsdóttir sem keppir í kúluvarpi. Þau Mímir Sigurðsson og Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH eru einnig í íslenska keppnisliðinu. Þau keppa öll á laugardag en Tiana og Guðbjörg keppa í 200m á sunnudag.

Í 100m hlaupinu eru 28 keppendur skráðir til leiks og þar eru Guðbjörg (11.68 sek) og Tiana (11.72 sek) með 6. og 10. besta tímann. Ef allt gengur að óskum ættu þær að komast áfram í úrslitahlaupin en væntanlega eru hlaupin A og B úrslit og er raðað inn í þau eftir bestu tímum. Í kúluvarpinu er Erna Sóley með 7. bestan árangur þeirra 10 keppenda sem boðið hefur verið á mótið en Erna hefur verið í bætingarham að undanförnu og því til alls líkleg. Í 200m eru 26 keppendur og eru þær Guðbjörg (23.61 sek) og Tiana (24,21 sek) með 5. og 15. bestu tímana. Þórdís er með 14. bestan tíma í 400m en verður í mikilli baráttu um sæti þar sem fjórar stúlkur eru með svipað góða tíma. Mímir fær öfluga keppinauta til að fást við en 12 keppendur eru skráðir.

Hægt að fylgjast með mótinu í beinni vefútsendingu á slóðinni https://www.leichtathletik.de/termine/top-events/junioren-gala-2018-mannheim-live/.

Nánari upplýsingar um mótið: http://2018.junioren-gala.de/en/home.php

Óskum keppendum Íslands góðs gengis!

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman

 

X