Guðbjörg Norðurlandameistari – góður árangur á NM20 og NMU23

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth

Nú um helgina fara fram Norðurlandameistaramót 19 ára og yngri og Norðurlanda- og Eystrasaltslandameistaramót 22ja ára og yngri.

Á NM U20 teflir Ísland fram sameiginlegu liði með Danmörku likt og síðastliðin ár. ÍR-ingar eiga að sjálfsögðu sína fulltrúa í liðinu. Að loknum fyrri keppnisdegi stendur stigakeppnin þannig að lið Danmerkur og Íslands er í öðru sæti í kvennakeppninni með 87 stig, sex stigum á eftir Noregi sem leiðir keppnina. Í karlakeppninni er lið Danmerkur og Íslands í fjórða sæti með 66 stig.

Dagurinn byrjaði vel með tvöföldum íslenskum sigrí í 100 m hlaupi kvenna, þar sem Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kom fyrst í mark á 11,47 sek og Tiana Ósk Whitworth á hæla henni á 11,53 sek. Tímar þeirra eru undir gildandi Íslandsmeti en meðvindur var of mikill í hlaupinu. Erna Sóley Gunnarsdóttir stóð sig einnig vel og varð önnur í kúluvarpi með 14.21m. Í langstökki varð Vilborg María Loftsdóttir í sjöunda sæti með 5,30 m stökki  en þar hlaut Birna Kristín Kristjánsdóttir úr Breiðabliki brons og var lengsta stökk hennar 5,86 m. Fimmta íslenska stúlkan til að komast á verðlaunapall í dag var  Þórdís Eva Steinsdóttir sem varð þriðja í 400 m hlaupi á 55,48 sek. Hinrik snær Steinsson, bróðir Þórdísar, hafnaði í sjöunda sæti í 400 m hlaupi karla á tímanum 50,22 sek og Mímir Sigurðsson keppti í kringlukasti og hafnaði í sjötta sæti með kasti upp á 48,67 m. Þórdís Hinrik og Mímir eru öll úr FH. Þá varð Baldvin Þór Magnússon úr UFA fimmti í 5000 m hlaupi á 16:40,77 mín.

Tveir ÍR-ingar voru mætt til leiks á NM/Baltic U23, þau Thelma Lind Kristjánsdóttir og Dagbjartur Daði Jónsson sem bæði voru í eldlínunni í dag. Dagbjartur Daði hafnaði í fimmta sæti í spjótkasti með 72,06 m. Thelma keppti bæði í kringlukasti og kúluvarpi. Í kringlunni varð hún fimmta með  kasti upp á 48,51m og sjöunda í kúlunni með 13,14 m, fimm cm styttra en Blikinn Irma Gunnarsdóttir sem varð sjötta. Aðeins einn Íslendingur komst á pall í dag og var það sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson úr FH sem kastaði 68,32 m og uppskar bronsverðlaun. Andrea Torfadóttir FH varð fimmta í 100 m á 12,25 sek og Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir úr UMSS varð einnig í fimmta sæti í sinni grein hástökki þar sem hún jafnaði sinn persónulega árangur með 1,77 m stökki.

Mynd af Facebook-síðu Frjálsíþróttasamband Íslands

 

 

X