Guðbjörg Evrópumeistari U18 graphic

Guðbjörg Evrópumeistari U18

06.07.2018 | höf: María Stefánsdóttir

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir varð í dag Evrópumeistari í 100 m hlaupi á EM U18 sem haldið er í Györ í Ungverjalandi. Guðbjörg hljóp á tímanum 11,75 sek en aðeins sex þúsundustu úr sekúndu skildu á milli hennar og þeirra Pamera Losange frá Frakklandi og Boglár­ka Ta­kács frá Ungverjalandi sem deildu öðru sætinu. Í undanúrslitunum, sem fóru fram í gær, hljóp Guðbjörg á 11,70 sek en best á hún 11,68 sek frá því í maí á þessu ári og er sá tími aldursflokkamet stúlkna 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára. Íslandsmet Sunnu Gestsdóttur úr UMSS er 11,63 sek, sett í júlí 2004. Guðbjörg hljóp einnig í undanrásum í 200 í dag, þar sem hún vann sinn riðil á tímanum 23,79 sek og tryggði sig þar með inn í undanúrslitin kl. 9:52 í fyrramálið.

Hin 15 ára gamla Elísabet Rut Rúnarsdóttir keppti í dag í úrslitum í sleggjukasti. Fjögur af sex köstum hennar voru ógild en lengsta kast hennar var 61,94 m sem skilaði henni áttunda sætinu, sem er frábær árangur. Í undanúrslitum í gær kastaði Elísabet lengst 63,84 m.

Þriðja ÍR-stúlkan, Helga Margrét Haraldsdóttir, keppti í undanúrslitum í kúluvarpi í morgun. Lengsta kast hennar var 13,82 m sem nægði ekki inn í úrslit og hafnaði hún í 19. sæti af 26. keppendum.

Við hjá Frjálsíþróttadeild ÍR erum stolt af þessum frábæru íþróttamönnum og óskum þeim og þjálfurum þeirra til hamingju með glæsilegan árangur og hlökkum til að fylgjast með Guðbjörgu í fyrramálið, en hún er eini Íslendingurinn sem ekki hefur lokið keppni á mótinu.

X