Góður árangur í frjálsíþróttakeppni RIG graphic

Góður árangur í frjálsíþróttakeppni RIG

03.02.2019 | höf: María Stefánsdóttir

Frjálsíþróttakeppni Reykjavíkurleikanna fór fram í Laugardalshöll í dag. Þar var mætt flest besta og efnilegasta frjálsíþróttafólk landsins, sem og öflugir keppendur frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku, Írlandi, Póllandi, Svíþjóð og Tékklandi. Fjölmargir íslensku keppendanna komu úr röðum ÍR.

Hlynur Andrésson sigraði í 1500 m hlaupi karla og bætti sinn besta árangur er hann kom í mark á 3:45,97 mín. Fyrir átti hann best 3:49,19 svo um umtalsverða bætingu er að ræða.

Benjamín Jóhann Johnsen bar sigur úr býtum í hástökki karla og rauf 2ja metra múrinn.

Í 800 m hlaupi karla voru þrír ÍR-ingar skráður til leiks. Sæmundur Ólafsson sigraði örugglega og kom í mark á 1:54,20 mín. Hugi Harðarson varð þriðji á 1:58,49 mín og Dagbjartur Kristjánsson fjórði á 2:08,64 mín.

Aníta Hinriksdóttir fékk góða keppni í 800 m hlaupi kvenna, en meðal keppenda var bronsverðlaunahafinn á HM innanhúss í fyrra, breska stúlkan Shelayna Oskan-Clarke, sem bar sigur úr býtum á tímanum 2:04,20 mín. Aníta varð þriðja á tímanum 2:04,88 mín.

Í 60 m hlaupi kvenna bætti Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir árangur sinn er hún kom í mark á tímanum 7,51 sek og varð þriðja í úrslitahlaupinu á eftir bresku stúlkunni Finette Agyapong (7,47 sek) og hinni dönslu Astrid Glenner-Frandsen (7,48 sek). Fimm fyrstu keppendurnir í hlaupinu bættu allar sinn besta árangur. Auk Guðbjargar hljóp Helga Margrét Haraldsdóttir í úslitum 60 m hlaupsins og kom hún í mark á 7,98 og varð áttunda. Auk þeirra tveggja kepptu fimm ÍR-ingar í undanrásum 60 m hlaupsins, þær Agnes Kristjánsdóttir, Ásta Margrét Einarsdóttir, Dagbjört Lilja Magnúsdóttir, Elma Sól Halldórsdóttir og Hildigunnur Þórarinsdóttir.

Helga Margrét keppti einnig í kúluvarpi kvenna og varð þar í öðru sæti og var besta kast hennar 12,55 m.

Birgir Jóhannes Jónsson var eini ÍR-ingurinn sem mætti til leiks í 60 m hlaupi karla. Tími hans í undanrásum var 7,32 sek sem dugði honum ekki inn í úrslitin.

Ívar Kristinn Jasonarson var meðal keppenda í 400 m hlaupi karla. Hann kom í mark á 49,67 sek sem er hans besti tími á árinu og varð sjötti.

Ísland tefli fram sterkum sveitum í 4×200 m boðhlaupi karla og kvenna og fór svo að A-sveitinar settu Íslandsmet. Tími karlasveitarinnar var 1:27,13 sek og var hún skipuð FH-ingunum Ara Braga Kárasyni og Kormáki Ara Hafliðasyni, Jóhanni Birni Sigurbjörnssyni úr UMSS og ÍR-ingnum Ívari Kristni Jasonarsyni. Íslenska sveitin hafnaði í öðru sæti á eftir þeirri bandarísku, sem sigraði á 1:26,40 mín og er það mótsmet. A-sveit kvenna kom fyrst í mark á tímanum 1:37,22 mín. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hljóp annan sprettinn, en auk hennar voru FH-ingarnir Melkorka Rán Hafliðadóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir og Glódís Edda Þuríðardóttir KFA í sveitinni. Bandaríska sveitin varð í öðru sæti og B-sveit Íslands í því þriðja á tímanum 1:41,04 en þær Agnes Kristjánsdóttir og Helga Margrét Haraldsdóttir voru í sveitinni auk Rutar Sigurðardóttur úr FH og Vilhelmínu Þór Óskarsdóttur Fjölni.

Magnús Örn Brynjarsson keppti í 60 m hlaupi og 600 m hlaupi í flokki pilta 15 ára og yngri. Í 600 m hlaupinu varð hann annar á tímanum 1:34,80 mín sem er bæting hjá honum, og fimmti í 60 m á 8,01 sek.

X