Gamlárshlaup ÍR graphic

Gamlárshlaup ÍR

01.01.2020 | höf: Kristín Birna

Frjálsíþróttadeild ÍR hélt hið árlega Gamlárshlaup í 44. sinn á Gamlársdag. Þrjú met voru slegin, fyrir utan persónuleg met þátttakenda sem eflaust voru mörg. Fyrst var það fjöldi skráðra þátttakenda sem voru 2074, annað var fjöldi þeirra sem mætti á ráslínuna og í þriðja og síðasta lagi einnig fjöldi þeirra sjálfboðaliða sem að framkvæmdinni komu en alls voru um 125 vaskir ÍR-ingar á öllum aldri að störfum í brautinni, í markinu, á hvatningarstöðvum og inni í Hörpunni og ekki má gleyma þeim sem störfuðu í aðdraganda hlaupsins við skráningu og kynningar.

Í ár luku 1472 10 km hlaupinu sem er algert met en einnig er boðið upp á 3 km skemmtiskokk sem miðað er að börnum, fjölskyldum og byrjendum. Sigurvegar lengra hlaupsins voru úr röðum ÍR-inga en Arnar Pétursson kom lang fyrstur í mark á fínum tíma 31:19 mín, annar varð Ingvar Hjartarson Fjölni á 34:45 mín og Hlynur Guðmundsson varð þriðji á 34:57 mín. Andrea Kolbeinsdóttir ÍR kom kvenna fyrst í mark á 36:30 mín og ellefta af öllum keppendum. Elín Edda Sigurðardóttir, einnig í ÍR, varð önnur á 37:38 mín og Arndís Ýr Hafþórsdóttir Fjölni hafnaði í þriðja sæti á 37:55 mín.

Framkvæmd hlaupsins gekk vel, enda góðar aðstæður þrátt fyrir smá rigningu og nokkurn vind en það var tiltölulega hlýtt og minni rigning en margir gerðu ráð fyrir. Frjálsíþróttadeild ÍR vill þakka keppendum fyrir þátttökuna, öllum þeim sjálfboðaliðum sem komu að framkvæmd hlaupsins, borgaryfirvöldum og lögregluna fyrir aðstoðina og síðast en ekki síst þem fjölmörgu áhorfendum sem hvöttu keppendur til dáða.

Úrslit má sjá hér 

ÍR ingar minntust Vilhjálms Einarssonar hins frækna íþróttamanns við upphaf hlaupsins með þögn og minningaorðum en Vilhjálmur lést hinn 28. desember síðastliðinn á sínu 86. aldursári.

Afrek Vilhjálms eru einstök á íþróttasviðinu; silfur á Ólympíuleikum, brons á Evrópumóti og Íslandsmet í þrístökki sem brátt hefur staðið í sextíu ár. Að vonum hlaut Vilhjálmur margvíslegar viðurkenningar fyrir afrek sín. Meðal annars var hann alls fimm sinnum útnefndur Íþróttamaður ársins, oftar en nokkur annar og var fyrstur manna tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2012.

Að keppnisferli loknum vann Vilhjálmur ötullega að því að efla ungt fólk, fræða og hvetja á sviði íþrótta- og menntamála bæði austan lands sem vestan. Vilhjálmur var einstakur maður með hjartað á réttum stað og var hann hvetjandi fyrir ungt fólk á sviðum íþrótta, menntunar og góðri lífssýn. Loks má geta þess að Vilhjálmur fékk Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag í þágu íþrótta- og uppeldismála.

Hlynur Andrésson í Gamlárshlaupi í Trier í Þýskalandi

Hlynur Andrésson var meðal þátttakenda í í mjög sterku 8 km götuhlaupi í Trier í Þýskalandi á Gamlársdag og hljóp hann mjög vel en tími hans var 23:47 mín og varð hann 19. í mark af 74. Hér má sjá úrslit hlaupsins  en eins og sjá má var Hlynur um 1 mín á eftir sigurvegaranum en hart var barist í lokametrunum og stutt á milli efstu sætanna.

Næst á dagskrá hjá Hlyni, sem býr og æfir í Hollandi, er undirbúningur fyrir innanhússtímabilið en fyrsta stóra mótið eru Reykjavíkurleikarnir þann 2. febrúar þar sem hann keppir í 1.500m og hann fylgir því eftir með því að keppa á Norðurlandamótinu innanhúss sem haldið er í Helsinki í Finnlandi.

X