Frábær árangur ÍR-inga RIG graphic

Frábær árangur ÍR-inga RIG

02.02.2020 | höf: Kristín Birna

Það var sannkölluð frjálsíþróttaveisla í Laugardalshöll í dag þegar 13. RIG fór fram fyrir fullri stúku áhorfenda. Mótið hófst á því að viðstaddir minntust Vilhjálms Einarsson og afreks hans 16.70 m í þrístökki sem er elsta Íslandsmetið í frjálsíþróttum, sett árið 1960 á Laugardalsvelli.

ÍR-ingar voru atkvæðamiklir að vanda og unnu ÍR-ingar til að mynda besta afrek Íslendings í kvenna- og karlaflokki. Það voru þau Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir í 200m, 23.98 sek sem er nýtt Íslandsmet stúlkna en fyrir það hlaut hún 1085 IAAF stig. Tíminn er jafnframt mótsmet. Besta afreks íslensks karls var 1500m hlaup Hlyns Andréssonar 3:46.40 mín en fyrir það hlaut hann 1070 stig en Hlynur sigraði örugglega í hlaupinu.

Guðni Valur Guðnason kom sá og sigraði í kúluvarpinu hann kastaði hvorki meira né minna en 18.43 m, bætt sig um 60 cm og er nú í sjöunda sæti yfir bestu kúluvarpara Íslandssögunnar, stökk úr 10. sætinu. Hann sigraði með 30 cm mun á Írann John Kelly.
Gubjörg Jóna vann einnig til gullverðlauna í 60m hlaupi, hljóp á 7.48 sek í úrslitunum en Guðbjörg hljóp alls fjögur hlaup á þeim tæpu 3 klst sem mótið stóð yfir. Eitt þeirra var 4 x 200m boðhlaup en þar elti hún bandarísku stúlkuna uppi og leidd íslensku sveitina til sigurs yfir þeirri bandarísku á tímanum 1:37,94 mín. Aðrar í sveitinni voru Andrea Torfadóttir, Þórdís Eva Steinsdóttir FH og  Agnes Kristjánsdóttir ÍR. Hildigunnur Þórarinsdóttir vann til bronsverðlauna í langstökki stökk 5,78m sem er hennar besti árangur innanhúss, átti best 5.61 m. Sæmundur Ólafsson sigraði í 800m á 1:56,09 mín, um 5 sek frá sínu besta.

Glæsilegur árangur hjá keppendum mikið um bætingar en umfram allt drengileg keppni og fagleg umgjörð.

 

 

X