EM í utanvegahlaupum var haldið í Annecy í Frakklandi dagana 1. – 3. júní. Brautin var 58 km löng með 3500 m hækkun. Til leiks voru skráðar 61 kona frá 22 þjóðum og 85 karlar frá 25 þjóðum. Íslenska liðið stóð sig frábærlega en kvennaliðið hafnaði í sjötta sæti í landsliðskeppninni og karlaliðið í ellefta sæti í landsliðskeppninni.
Í einstaklingskeppni kvenna varð Andrea Kolbeinsdóttir ÍR í 6. sæti í heildina en hún hljóp á tímanum 6:10,54 klst. Þetta er frábær árangur hjá Andreu en ekki er svo ýkja langt síðan hún hóf að keppa í utanvegahlaupum sem gerir árangurinn enn glæsilegri. Úrslit mótsins má finna hér.
Óskum Andreu til hamingju með þennan frábæra árangur og góðs gengis í komandi verkefnum sem eru meðal annars Laugavegurinn um miðjan júlí.
Fríða Rún Þórðardóttir
Formaður frjálsíþróttadeildar ÍR