EM öldunga á Ítalíu graphic

EM öldunga á Ítalíu

13.09.2019 | höf: María Stefánsdóttir

Evrópumeistaramót öldunga (Masters) 35 ára og eldri, fer nú fram á Feneyjasvæðinu á Ítalíu. Fjórir íþróttamenn frá Íslandi eru meðal keppenda, þar af tveir ÍR-ingar. Það eru þau Fríða Rún Þórðardóttir sem keppir í 4 km víðavangshlaupi og 10km götuhlaupi 45-49 ára og Halldór Matthíasson í tugþraut 70-74 ára. Jón Bjarni Bragason úr Breiðabliki keppir í kastþraut 45-49 ár (kúluvarp, lóðkast, sleggjukast, spjótkast og kringlukast allt á einum degi) 15. september en hann er með skráðan þriðja ársbesta árangur keppenda 3600 stig.  http://www.fidal.it/risultati/2019/COD7632/GaraL956.htm Íslandsmet hans í flokknum 3.924 stig. Kristján Gissurarson, einnig úr Breiðabliki, var skráður til keppni í stangarstökki, 65-69 ára.

Fríða Rún hefur lokið keppni í 4 km víðavangshlaupi og varð hún í 2. sæti á tímanum 14.22 mín á mjög erfiðum og krókóttum kúrsi. Þetta er mjög fínn árangur hjá henni þar sem hún er á síðasta ári í aldursflokknum. http://www.fidal.it/risultati/2019/COD7632/Gara828.htm Fríða Rún keppir aftur á sunnudaginn í 10km götuhlaupi en þar eru 12 keppendur skráðir til leiks. http://www.fidal.it/risultati/2019/COD7632/GaraL842.htm

Halldór hefur lokið keppni í tugþrautinni og hafnaði hann í 4. sæti með 5471 stig. Keppni var óvenjulega að því leitinu til að seinni daginn þurfti að stöðva keppnina þegar stangarstökkið var rétt hafið vegna þruma, eldinga og  úrhellis rigningar, þannig að flæddi upp úr skolpniðurföllum gatna. Fólk þurfti að vaða göturnar upp í miðjan legg til að komast ferða sinna. Þegar rigningunni slotaði fékk Halldór að taka eitt kast í spjótinu og hlaupa einn 1500m þar sem hann átti flug heim snemma morguninn eftir sem ekki var hægt að hliðra til, en keppinautar hans kláruðu þrautina daginn eftir. Fyrir þetta hlaut hann 5.471 stig sem dugði í fjórða sætið. Halldór hefði þurft að ná 5.584 stigum til að ná í bronsverðlaun. Íslandsmetið í aldursflokknum er 5.693 stig og setti Stefán Hallgrímsson úr ÍR það í Malaga 2018.

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman

X