Fyrri dagur MÍ fór fram á Laugardalsvelli í dag við frábærar aðstæður, þó svo að keppni hafi byrjað í smá rigningarúða. Við lok keppnisdagsins er ÍR í fyrsta sæti, einu stigi fyrir ofan FH í heildar stigakeppninni með 39 stig, Breiðabilk er í 3. sæti með 14 stig. Góð keppni einkenndi daginn og komu þrír ÍR-ingar til baka í keppni eftir meiðsli sem er alltaf mjög ánægjulegt. Þetta voru Hulda Þorsteinsdóttir sem endaði með að sigra stangarstökkið, Sindri Lárusson sem hlaut brons í kúluvarpi og Björg Gunnarsdóttir sem komst í úrslit í 100m og hljóp í 4 x 100m boðhlaup með sveit ÍR sem hafnaði í 2. sæti. Mikill fjöldi þátttakenda var í sumum greinum t.d. hlupu 23 stúlkur 100m og þar á meðal átta ÍR-ingar og náðu sex af þeim að bæta sinn besta eða ársbesta árangur. Af þeim sjö stúlkum sem síðan hlupu úrslitahlaupið voru fimm að hlaupa sinn besta tíma og tvær að hlaupa sitt ársbesta en ÍR átti þrjár í úrslitum þrátt fyrir að hvorki Tiana Ósk Whitworth né Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hafi verið meðal keppenda í þeirri grein.
Þeir ÍR-ingar sem hömpuðu Íslandsmeistaratitli voru:
- Sæmundur Ólafsson í 1500m á 4:04,82 sem er hans ársbesta.
- Arnar Pétursson í 3000m hindrun, 9:48,04 mín.
- Guðni Valur Guðnason í kúluvarpi, 17,09 m.
- Hildigunnur Þórarinsdóttir í þrístökki, 11,62 m sem er hennar ársbesta.
- Hulda Þorsteinsdóttir í stangarstökki, gull á sínu fyrsta móti í 2 ár, 3,70m, gríðarlega gaman að sjá Huldu stökkva á ný.
- Erna Sóley Gunnarsdóttir, setti nýtt mótsmet í kúluvarpi og sigraði glæsilega með 15,68m
Aðrir ÍR-ingar sem komust á pall voru:
- Hlynur Ólason í 1500m á 4:15,02 mín sem er hans besti árangur í 1500m utanhúss!
- Benjamín Jóhann Johnsen þriðji í 110 m grindahlaupi á 15,27 sek sem er jafnframt bæting. Benjamín kastaði spjótinu síðan 54.54m og varð annar lauk deginum með hástökki stökk 1,93 m og varð þriðji. Benni er greinilega í flottu formi, nýkominn úr harðri tugþrautarkeppni.
- Birgir Jóhannes Jónsson varð annar í þrístökki 13.33 m sem er hans ársbesta.
- Sindri Lárusson 3. sæti í kúluvarpi, 14,71 m.
- Agnes Kristjánsdóttir, 3. sæti í 100m á nýju PB 12,19 sek, frábær tími. Agnes hljóp einnig 400m og varð fjórða á nýju PB 58,65 sek.
- Ingibjörg Sigurðardóttir hljóp frábært 400m hlaup, varð 2. á 58,18 sek
- Iðunn Björg Arnaldsdóttir, 2. í 1500m, 4:54,38 mín en hún er að koma til baka eftir meiðsli og hefur lítið keppt.
- Fríða Rún Þórðardóttir sem keppt hefur á MÍ nánast sleitulaust frá árinu 1983 varð 3. í 1500m á 5:01,91mín hennar besti tími utanhúss síðan 2012.
- Kvennasveit ÍR í 4 x 100m boðhlaupi, 2. sæti á eftir FH á 49,21 sek.
- Hildigunnur Þórarinsdóttir, gull í þrístökki 11,62m ársbesta en hún bætti sinn besta árangur í 100m grind stuttu áður.
- Stella Dögg Eiríksdóttir Blöndal, brons í stangarstökki 3.15 m
- Thelma Lind Kristjánsdóttir 12,70m í kúluvarpi og annað sætið.
- Marta María Bozovic Siljudóttir, 3 í spjótkasti og bæting, 36,63m
Keppni heldur áfram á morgun og hefst kl. 10.30 með keppni í stangarstökki karla, sem skv. tímaseðli átti að hefjast þremur tímum síðar en vegna óhagstæðrar veðurspár fyrir stangarstökk var keppni í greininni flýtt. Klukkutíma síðar hefjast undarásir í 200 m hlaupi.
Fríða Rún Þórðardóttir tók saman.