Benjamín með bætingu á EM í fjölþrautum graphic

Benjamín með bætingu á EM í fjölþrautum

08.07.2019 | höf: María Stefánsdóttir

Benjamín Jóhann keppti með landsliði Íslands í Evrópubikar í tugþraut í Ribera Brava í Portúgal um helgina og hafnaði í 5. sæti af 24 keppendum en þrír helltust úr lestinni. Þetta er frábær árangur hjá honum á hans stærsta móti til þessa og önnur bæting hans í tugþraut á fjórum vikum. Hann hlaut 7.146 stig sem er 10. besti árangur Íslendings í tugþraut. Innan við 100 stig skildu að hann og næsta keppanda og um 150 stig vantaði til að komast á pall. Þessi stigafjöldi gefur Benjamín 995 IAAF árangursstig.

Ef að helgin er tekin saman byrjaði Benjamín ágætlega í 100m hljóp á 11.46 sek en spennan tók að magnast þegar hann bætti sig frá því í metþrautinn í Svíþjóð í næstu fjórum greinum fyrridags. Í langstökki stökk hann 6.56 m (bæting úr 6.35 m), kúlan flaug lengst 12.15 m (bæting úr 11.53m), hann stökk 1,98 m í hástökki (bætti sig um 5 cm) og hljóp 400m á 50,46 sek (bæting úr 51.98 sek) sem gaf honum 3.667 stig og gott veganesti inn í seinni daginn eða 168 stigum meira en í metþrautinni í Svíþjóð í júní þar sem hann fór í fyrsta sinn yfir 7000 stigin.

Seinni dagur hófst á 110 m grindahlaupi þar sem hann hljóp á 15.32 sek, kringlan sveif 34,24 m, hann stökk 4.40 m í stangarstökki og kastaði spjótinu 58.47 m. Í 1500m hljóp hann á 4:40,95 mín. Þetta var bæting um nákvæmlega 5 m í kringlukasti, 15 cm í stöng og 3 sek bæting í 1500m frá metþrautinni.

Glæsileg framistaða hjá Benjamín.Hjá konunum en hafnaði María Rún Gunnlaugsdóttir FH í 3. sæti með 5562 stig og um 50 stiga bætingu, hreint frábær árangur hjá henni en hún er fjórða á íslenskri afrekaskrá í sjöþraut.

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman.

X