Íslandsmeistaramót í 10km götuhlaupi og Vormót HSK

Nú hefur utanhússtímabilið hafist með aldeilis glæsilegri helgi hjá okkar fólki. Í Reykjavík fór fram Íslandsmeistaramótið í 10km götuhlaupi þar sem ÍR-ingar voru áberandi. Þar að auki fór fram Vormót HSK á Selfossi þar sem margir ÍR-ingar byrjuðu utanhússtímabilið sitt með glæsibrag.

Í 10km hlaupi kvenna sigraði Arndís Ýr Hafþórsdóttir á tímanum 00:37:46 en í öðru sæti varð ÍR-ingurinn Elín Edda Sigurðardóttir á tímanum 00:38:13 sem er persónuleg bæting hjá henni og í þriðja sæti varð reynsluboltinn Fríða Rún Þórðardóttir á tímanum 00:40:45. Til gamans má geta þess að Fríða Rún er 47 ára á þessu ári. Glæsilegur árangur hjá stelpunum okkar.

í 10km hlaupi karla urðu ÍR-ingar í fyrsta og öðru sæti en Arnar Pétursson sigraði á tímanum 00:32:30 og í öðru sæti varð Þórólfur Ingi Þórsson á tímanum 00:33:36. Með þessum tíma bætti Þórólfur hvorki meira né minna en 20 ára gamalt Íslandsmet í flokki 40-47 ára karla.  Einnig heldur betur glæsilegur árangur hjá drengjunum okkar. (á myndinni má sjá Arnar og Þórólf að hlaupi loknu).

Á Selfossi fór svo fram Vormót HSK en þar má með sanni segja að ÍR-ingar hafi átt góða opnun að utanhústímabilinu.

í 100m hlaupi karla kepptu fjórir ÍR-ingar.

Ívar Kristinn Jasonarson varð í þriðja sæti og hljóp á 10.97sek sem verður að teljast glæsilegt fyrsta hlaup sumarsins en hann á best 10.90sek frá því í fyrra.

Björn Jóhann Þórsson varð í fjórða sæti og hljóp á 11.21sek sem er einnig glæsileg opnun en Björn hefur ekki farið í keppnisskóna í þónokkuð langan tíma og á hann best 11.12 sek frá því árið 2010. Það er mjög gaman að sjá Bjössa koma aftur til keppni.

Tugþrautarmaðurinn kunni Einar Daði Lárusson hljóp á 11.29 sek en Einar á best 11.09 frá því árið 2012 og er einnig mjög gaman að sjá Einar aftur á brautinni eftir þónokkra fjarveru vegna meiðsla.

Enn einn ÍR-ingurinn sem ekki hefur keppt um stund var Þorkell Stefánsson en hann hljóp á 11.34sek sem var bæting um 10 sekúndubrot sem er aldeilis glæsileg opnun.

Í 3000 metra hlaupi karla kepptu tveir ungir ÍR-ingar, þeir Dagbjartur Kristjánsson og Hlynur Ólason. Dagbjartur sigraði á tímanum 9:42,20 en Hlynur varð í öðru sæti á tímanum 9:46,53

Í langstökki karla sigraði Þorsteinn Ingvarsson með miklum yfirburðum þegar hann vippaði sér 7.44 metra en Þorsteinn er í hörkuformi þessa dagana og verður gaman að sjá meira af honum í sumar. Glæsileg byrjun á keppnistímabilinu.

Í kúluvarpi karla kepptu þeir Guðni Valur Guðnason og Sindri Lárusson fyrir hönd ÍR. Guðni Valur sigraði með kast upp á 16.98m sem er bæting utanhúss og Sindri varð í þriðja sæti með kast upp á 15.35metra. Glæsilegt hjá þeim

Í kringlukasti karla sigraði einnig Guðni Valur nokkuð örugglega með kast upp á 57.99metra en Guðni Valur keppti á Ólympíuleikunum í þessari grein í fyrra og stefnir á bætingar í sumar.

Í spjótkasti sigraði Guðmundur Sverrisson með kast upp á 6674metra en hann hefur verið frá vegna meiðsla um stund og gaman að sjá hann í keppni á ný. Guðmundur á best 80.66 frá því árinu 2013 og er til alls líklegur.

100m hlaup kvenna var hörkuspennandi en þar etjuðu kappi um fyrsta og annað sæti þær Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir og Tíana Ósk Whitworth. Hrafnhild hafði betur og hljóp á tímanum 12.04 sek en Hrafnhild á best 11.82sek frá því 2014. Tíana Ósk varð önnur á tímanum 12.07 sem var bæting um 28 sekúndubrot sem er glæsilegt í fyrsta hlaupi sumarsins. Í þriðja sæti varð Katrín Steinunn Antonsdóttir á tímanum 12.47sek sem er aldeilis glæsilegt miðað við það að þetta var hennar allra fyrsta 100m hlaup. Þær Kristín Lív Svabo Jónsdóttir og Helena Sveinborg Jónsdóttir kepptu einnig í 100m hlaupi og hlupu á 13.36 (Kristín) og 13.46 (Helena) og voru þær báðar að bæta sig! Aldeilis glæsilegt hjá öllum þessum stúlkum.

X