102. Víðavangshlaup ÍR graphic

102. Víðavangshlaup ÍR

19.04.2017 | höf: Helgi Björnsson

Á morgun, sumardaginn fyrsta, verður Víðavangshlaup ÍR ræst í hundraðasta og annað sinn. Hlaupið verður ræst á slaginu 12 í Tryggvagötu en hlaupið er upp Hverfisgötu, niður Laugarveg og suður Lækjargötu. Þar bætast við hópinn skemmtiskokkarar og keppendur í Grunnskólamótinu í götuhlaupi en þau hlaupa 2,7 km. Skemmtiskokkið og Grunnskólamótið verður ræst 12:10 fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík. Hlaupið er áleiðis út að BSÍ og þar snúið við með litlum hring niður á Vatnsmýrarveg, Sóleyjargata hluapin til baka að Hljómskálanum og þar beygt til vinstri inná Skothúsveg. Hlaupið er um Tjarnargötu inn að Austurvelli þar sem beygt er til hægri inn á Kirkjustræti og að lokum til vinstri inn á Pósthússtræti en markið er á gatnamótum Pósthússtrætis og Austurstrætis.

Rúmlega 500 keppendur eru skráðir til leiks og má því reikna með tæplega 600 manna hlaupi og spennandi keppni en hlaupið er jafnframt Meistaramót Íslands í 5 km götuhlaupi. Tæplega 100 sjálfboðaliðar koma til með að vinna hin ýmsu störf á morgun og koma þeir að þessu sinni úr nokkrum deildum ÍR.

X