Sigurður Þórir Þorsteinsson kosinn í stjórn Knattspyrnuþjálfarasambands Evrópu graphic

Sigurður Þórir Þorsteinsson kosinn í stjórn Knattspyrnuþjálfarasambands Evrópu

17.11.2016 | höf: Brynja Guðmundsdóttir

Í byrjun nóvember fór fram árlega ráðstefna Knattspyrnuþjálfarasambands Evrópu (AEFCA) sem að þessu sinni fór fram í Como á Ítalíu. Þar voru fulltrúar Evrópuþjóðanna mættir ásamt gestum frá öðrum heimsálfum.

 

Stjórnarkjör fór fram að þessu sinni og voru ellefu frambjóðendur í kjöri um níu sæti í stjórn sambandsins. Kjósa átti í sex stöður varaforseta (vice president) og þrjá í stöðu meðstjórnenda.

Okkar maður Sigurður Þórir Þorsteinssonn yfirþjálfari yngri flokka knattspyrnudeildar ÍR og formaður Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands var í framboði og háði harðan kosningabaráttu. Hann hélt m.a. magnaða framboðsræðu sem endaði á víkingaklappinu fræga sem sló auðvitað í gegn. Norðurlandþjóðirnar og Balkanskaginn ásamt fleiri þjóðum studdu framboð Sigurðar Þóris. Það fór svo að hann hlaut kosningu sem einn af sex varaforsetum sambandsins til næstu fjögurra ára. Ísland er eina smáþjóð Evrópu sem kom manni að í stjórn samtakanna með fulltrúum stórþjóðanna sem skipa hin átta sætin í stjórninni. Aðeins einu sinni áður hefur Íslendingur náð kjöri í stjórn Knattspyruþjálfarasambands Evrópu sem stofnað var árið 1980 en það var Reynir Karlsson fyrrverandi íþróttafulltrúi ríkisins sem sat í fyrstu stjórn sambandsins.

Kjör Sigurðar Þóris er mikill heiður fyrir íslenska knattspyrnu, íslenska knattspyrnuþjálfara, alla félaga ÍR og auðvitað hann sjálfan.

 

ÍR-ingar óska Sigurði Þóri til hamingju með kjörið.

 

X