Almennt sér ÍR ekki um að vátryggja iðkendur gagnvart líkamstjóni sem getur hlotist af slysum við íþróttaiðkun.
Undantekning frá því er þó ef sérstaklega er samið um slíkt í samningum við leikmenn meistaraflokka.
Algengt er að heimilistryggingar vátryggingarfélaga bæti tjón sem verður við íþróttaiðkun barna sem búa á heimilinu, allt að 16 ára aldri.
Rétt er að hvetja forráðamenn barna á þeim aldri sem iðka íþróttir til að kanna skilmála sinna heimilistrygginga með tilliti til þessa.
Slíkar tryggingar bæta aftur á móti venjulega ekki tjón sem börn sem eru 16 ára eða eldri verða fyrir.
Íþróttatrygging barna hjá Tryggja.is
ÍR og Tryggja í samstarfi við Lloyd´s, bjóða tryggingu fyrir börn yngri en 22 ára í leik og starfi. Tryggingin gildir allan sólarhringinn á æfingum, keppnum og frítíma hvar sem er í heiminum.
Þetta er algjörlega valfrjálst fyrir félög/foreldra en fyrir hverja áskrift fær félagið 1.000 kr.
ÍR hvetur því félagsmenn að kynna sér þetta en Tryggja mun sjá um alla úrvinnslu og standa skil á greiðslum.
Sjúkratryggingar Íslands sjá um að slysatryggja íþróttafólk.
Tryggingin nær til íþróttafólks sem orðið er 16 ára, tekur þátt í íþróttaiðkunum og slasast við æfingar, sýningar eða keppni.
Með íþróttaiðkun er átt við að viðkomandi æfi reglubundið hjá íþróttafélagi innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ)
Með slysi í skilningi vátryggingaréttar er almennt átt við „skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama hins tryggða og gerist gegn vilja hans“.
Því falla t.d. álagseinkenni, sem ekki er unnt að rekja til eins tiltekins atburðar, almennt utan við gildissvið umræddra vátrygginga.
Iðkendur íþrótta eru í sumum tilvikum slysatryggðir á grundvelli laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga og reglugerð nr. 245/2002 um slysatryggingar íþróttafólks samkvæmt III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar.
Samkvæmt lögum nr. 45/2015 er íþróttafólk sem tekur þátt í íþróttaiðkun, hvort heldur er æfingum, sýninum eða keppni og er orðið 16 ára slysatryggt. Þá eru samkvæmt tilvitnaðri reglugerð nr. 245/2012 jafnframt sett eftirtalin skilyrði:
Slys sem verða á ferðum til eða frá æfingum, sýningum eða keppni falla ekki undir slysatryggingar íþróttafólks samkvæmt reglugerðinni. Hið sama gildir um slys í búningsherbergjum og baðklefum og slys á keppnis- eða sýningarferðalögum, innanlands sem utan, nema þau sem verða við æfingar, sýningar eða keppni.
Nánar á vef Sjúkratrygginga Íslands hér: https://www.sjukra.is/slys/slysatryggingar/til-hvada-slysa-taka-tryggingarnar/ithrottaslys/
Síðast uppfært: 05.11.2020 klukkan 8:38