Þrefaldur ÍR sigur á MÍ graphic

Þrefaldur ÍR sigur á MÍ

14.07.2019 | höf: María Stefánsdóttir

ÍR sigraði í karla- og kvennaflokki og í heildarstigakeppni Meistaramóts Íslands 2019 eins og árin 2017 og 2018 en ef horft er aftur í tímann til ársins 2007 þá hefur ÍR sigrað alls tíu sinnum og orðið í öðru sæti þrisvar (2008, 2011, 2016). Glæstur árangur það!

Samanlagt hlaut liðið 76 stig, fjórum stigum meira en FH sem varð í öðru sæti. Lið Breiðabliks hafnaði í þriðja sæti með 27 stig. ÍR konur sigruðu með fjögurra stiga mun, hlutu 42 stig en lið FH 38. Karlalið ÍR og FH fengu bæði 34 stig, en þar sem ÍR-karlar báru sigur úr býtum í sjö greinum en FH-ingar í sex urðu ÍR-ingarnir Íslandsmeistarar.

Alls hlaut ÍR-liðið 37 verðlaun; 14 gull, 11 silfur og 12 brons, sem var sama og FH hlaut nema ÍR fékk fjórum fleiri brons. Þær Aníta Hinriksdóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir voru með 2. og 7. bestu afrekin út frá stigaútreikningum IAAF, Aníta hlaut 1021 stig fyrir 800m og Guðbjörg 987 stig fyrir 200m.

Sjö Íslandsmeistaratitlar komu í hlut ÍR-inga í dag á seinni degi Mesitaramótsins. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir í 200m, Aníta Hinriksdóttir í 800m, Fríða Rún Þórðardóttir í 3000m, og kvennasveitin í 4 x 400m boðhlaupi en hana skipuðu Aníta, Ingibjörg Sigurðardóttir, Dagbjört Lilja Magnúsdóttir og Björg Gunnarsdóttir. Karlamegin voru það Arnar Pétursson í 5000m, Árni Haukur Árnason í 400m grindahlaupi (og setti PG 57,80sek) og Guðni Valur Guðnason í kringlukasti.

Þrefaldur ÍR sigur í 800 m hlaupi kvenna. Ingibjörg, Aníta og Iðunn á palli.

Þrefaldur ÍR sigur í 800 m hlaupi kvenna. Ingibjörg, Aníta og Iðunn á palli.

Aðrir sem hlutu verðlaun voru Ingibjörg Sigurðardóttir (2. sæti) og Iðunn Björg Arnarldsdóttir (3. sæti) í 800m en þar var ÍR með þrefaldan sigur. Í langstökki varð Hildigunnur Þórarinsdóttir í 3. sæti. Thelma Lind Kristjánsdóttir hlaut silfur í kringlukastinu en hún hefur átt við meiðsli að stríða og var því ekki meðal keppeda á EMU23 sem fram fór um helgina. Rut Tryggvadóttir hlaut einnig silfur í sleggjukasti.

Karlasveitin varð í 3. sæti í 4 x 400m boðhlaupinu en sveitina skipuðu Sæmundur, Árni Haukur, Hugi Harðarson og Gísli Igor Zanen. Hlynur Ólason varð annar í 5000m og Reynir Zoega varð 3. í 400m grindahlaupi á sínum besta tíma eins og Árni Haukur.

Þessi árangur er frábær í ljósi þess að margt lykilfólk vantaði í hópinn en það er einmitt styrkur liðsins að maður kemur í manns stað og allir leggja sig fram við að hafa gaman og standa sig vel fyrir sjálfan sig og liðið.

Næsta verkefni er Bikakeppni FRÍ þann 27. júlí í Hafnarfirði en þar gerir ÍR liðið sér lítið fyrir og sendir tvö lið til keppni.

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman

X