ÍR-ingar á hlaupum

07.07.2019 | höf: María Stefánsdóttir

Ármannshlaupið fór fram 3. júlí en hlaupið er þekkt fyrir hraða og flata braut og litu nokkrar bætingar dagsins ljós í hlaupinu. Helstu úrslit voru þau að Arnar Pétursson sigraði á 32:40 mín, Þórólfur Ingi Þórsson varð 2. á 32:41 mín sem er 17 sek bæting og met í flokki 40-45 ára. Maxime Sauvageon varð þriðji á 33:19 mín, Vilhjálmur Þór Svansson varð fjórði á 34:57 mín (um 20 sek frá hans besta) og Valur Þór Kristjánsson fimmti á 35:42 mín sem er hans ársbesti tími og góð bæting á næstbesta árstímanum en hann á best 34:31 mín. Allir keppa þeir undir merkjum ÍR.

Í kvennaflokki varð Fríða Rún Þórðardóttir í 2. sæti á 39:08 mín sem er hennar besti tími í 2 ár og Hrönn Guðmundsdóttir 5. á 41:43 mín. Aðstæður í hlaupinu voru nokkuð góðar, þó aðeins vindur á móti fyrstu 5km sem síðan nýttist sem smá meðvindur á leiðinni til baka, 413 keppendur luku hlaupinu sem var það fjölmennasta til þessa og um 100 fleiri en mótshaldari bjóst við.

Akureyrarhlaupið, þar sem MÍ í hálfu maraþoni fór fram, var haldið 4. júlí og voru aðstæður erfiðar, blautt og mótvindur síðustu km af öllum vegalengdum, þar af síðustu 7-8 km af hálfa maraþoninu. Helstu úrslit urðu þau að Arnar Pétursson sigraði í hálfu maraþoni karla á 1:09:57 mín, Vilhjálmur Þór Svanssson varð 2. á 1:18:53 mín sem er bæting hjá honum og Vignir Már Lýðsson varð 3. karl í mark á 1:23:54 mín sem er nokkuð frá hans besta. Fyrst kvenna í mark, og þriðja af öllum keppendum, var Elín Edda Sigurðardóttir á 1:20,42 mín sem er frábær tími og innan við 1 mín frá hennar besta tíma 1:19,38 mín síðan í mars á þessu ári.

Einnig var keppt í 5 km og 10 km. Í 5 km kom Andrea Kolbeinsdóttir fyrst kvenna og önnur allra keppenda í mark á 17:55 mín. Í 10 km gerði Maxim Sauvageon sér lítið fyrir og sigraði örugglega á 34:21 mín og 3 og hálfri mínútu á undan næsta keppanda í mark.

Fríða Rún Þórðardóttir tók saman

X